Vinir Sjonna, eða Sjonni’s friends eins og þeir verða kallaðir í Düsseldorf, verða fjórtánda atriðið á svið á fyrsta undanúrslitakvöldi Eurovision keppninnar þann 10. maí. Á undan Íslandi stígur hin króatíska Daria Kinzer á svið með lag sitt Break a leg, en á eftir framlagi Íslands kemur auglýsingahlé.
Tvær þjóðir, ein úr hvorum helmingi þáttarins, fengu að velja sér stað í röðinni. Það voru fyrstu þjóðirnar tvær sem dregnar voru upp úr hattinum sem fengu að velja, aðrar voru svo dregnar í réttri röð.
Pólland kaus að ríða á vaðið fyrra undanúrslitakvöldið og Grikkir kusu sér svo að eiga síðasta orðið. Norðmenn eru númer tvö með framlag sitt Haba Haba og Finnar eru tíundu í röðinni.
Í seinni undanúrslitariðli fengu Lettar og Slóvakar að velja sér stað í röðinni. Slóvakar völdu sér að vera númer fimm en Lettar vildu vera númer 17. Eric Saade flytur sænska framlagið áttundi í röðinni, en hljómsveitin A Friend in London frá Danmörku stígur næstsíðust á svið.
Röð á undanúrslitakvöldum Eurovision má sjá í heild með því að smella hér.
Alls keppa 19 þjóðir í hvorum undanúrslitariðli. 10 af hvoru kvöldi komast áfram á úrslitakvöldið 14. maí. Alls keppa 25 þjóðir, en fimm þjóðir eiga fast sæti í úrslitum; Bretar, Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar og Ítalir.